Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 147/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 147/2021

Mánudaginn 31. maí 2021

A

gegn

Barnavernd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 18. mars 2021, um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar um aðstæður sona kæranda. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning undir nafnleynd þann 11. mars 2021. Efni tilkynningar var áfengisneysla, misnotkun lyfja og ofbeldi kæranda í garð tveggja sona sinna. Ráðgjafi frá barnavernd tók í kjölfarið viðtal við yngri drenginn í skóla hans þann 15. mars 2021. Neitaði hann að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu fullorðins aðila og greindi frá góðri líðan á heimili föður og sagðist ekki hafa orðið vitni að áfengisneyslu á heimili föður. Barnavernd fór samdægurs í heimsókn á heimili föður þar sem rætt var við hann og samþykkti hann að tekin væri fíkniefnaprufa sem reyndist síðar neikvæð. Aðstæður á heimili föður voru metnar góðar og var það mat ráðgjafa að ekkert í frásögn drengsins, heimilisaðstæðum eða í samtali við föður vekti sérstakar áhyggjur starfsmanna barnaverndar.

Með beiðni kæranda til Barnaverndar B var þess óskað að nafnleynd tilkynningarinnar yrði aflétt. Beiðni var hafnað með ákvörðun, dags. 18. mars 2021. Í ákvörðun Barnaverndar B kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnavernd B telur að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem áskildar eru til þess að aflétta megi nafnleynd sbr. 19. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Með vísan til framangreinds er beiðni um að aflétt verði nafnleynd tilkynnanda á tilkynningu frá 11. mars 2021 í máli strákanna, synjað.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 18. mars 2021. Með bréfi, dags. 23. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndar B vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndar B barst með bréfi, dags. 12. apríl 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. apríl 2021, var hún send kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust 12. apríl 2021 og voru þær sendar til Barnaverndar B til kynningar 26. apríl 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að nafnleynd verði aflétt af þeirri tilkynningu sem Barnavernd B barst þann 11. mars 2021 vegna sona sinna.

Kærandi kveðst hafa verið tilkynntur tvisvar sinnum til barnaverndar í ágúst 2020 eftir að synir hans voru vistaðir hjá honum vegna þess að móðir þeirra fór í meðferð. Kærandi hafi sýnt fram á sakleysi sitt og heimilað barnavernd að koma í óboðað eftirlit og hafi hann farið í fíkniefnaprufu sem sýndi ekkert athugavert.

Þann 11. mars 2021 hafi tilkynning borist barnavernd þar sem því sé haldið fram að kærandi sé í mikilli drykkju, neyslu á lyfjum og beiti drengina grófu ofbeldi. Kærandi kveðst ekki drekka áfengi, hann sé ekki í neyslu og beiti ekki syni sýna ofbeldi á neinn hátt. Samkvæmt áliti lækna og sálfræðinga hafi drengirnir aldrei verið betri. Þeir hafi ekki dottið, rekist í eða meitt sig frá því að þeir fluttu til kæranda og því hafi engir áverkar verið á þeim sem hægt væri að túlka sem ofbeldi í þeirra garð. 

Kærandi telur að tilkynnandi hafi vísvitandi farið með rangt mál til þess að skaða hann og börn hans. Kærandi kveðst hafa áhyggjur af því upp á hverju þessi einstaklingur taki næst. Kærandi kveðst hafa áhyggjur af öryggi barna sinna. Kærandi bendir á að tilkynningin hafi haft í för með sér mikið rask, bæði fyrir hann og drengina. Þeir hafi verið teknir í viðtöl í skóla og spurðir hvort faðir þeirra væri vondur við þá, meiddi þá og kærandi hafi þurft að taka á móti þremur fulltrúum barnaverndar á heimili, auk þess sem hann hafi tekið fíkniefnapróf. Allt vegna þess að umræddur einstaklingur hafi vísvitandi gefið upp rangar upplýsingar til þess eins að skaða kæranda.

Kærandi kveðst velta því fyrir sér hvað vaki fyrir þessum einstaklingi sem mjög líklega hafi ekki hitt kæranda eða umgengist hann í langan tíma. Kærandi kveðst vilja fá tækifæri til þess að fara með málið fyrir dómstóla. Þá telur kærandi athugavert að starfsmenn Barnaverndar B hafi afgreitt málið.

Kærandi bendir á að upplýsingar sem fram komi í tilkynningu til Barnaverndar B, dags. 1. september 2020, frá starfsmanni C. um að kærandi muni missa bílprófið þar sem örvandi efni hafi mælst í blóði hans, séu ekki réttar. Kærandi bendir á að umrædd mæling hafi verið vegna lyfs sem hann tekur við ADHD og málið sé fyrir dómi. Um leið og staðfesting berist frá lækni kæranda um að hann sé að taka lyfið við ADHD sé því máli lokið. Þá telur kærandi að umræddur starfsmaður C hafi falast eftir því að annar sonur hans yrði vistaður hjá henni. Þegar þessi starfsmaður hafi komið til kæranda í umrætt skipti hafði hún engar áhyggjur af líðan drengjanna. Kærandi hafi verið í miðjum flutningum og það hafi allir vitað. Auk þess hafi hann nýlega verið búinn í aðgerð vegna […]. Þar sem […] hafi hann ekki verið í neinu ástandi til að lyfta neinu þungu og því hafi hann fengið æskuvin sinn til að aðstoða sig. Að öðru leyti hafi frásögn starfsmannsins verið ýkt eða röng. Kærandi bendir á að hann hafi fengið símtal frá starfsmanni C. eftir þetta og tekið fram við það tækifæri að hann vildi ekki að umræddur starfsmaður, sem hafi tilkynnt hann, sinnti eftirliti í framtíðinni þar sem hún vildi fá annan drenginn í fóstur til sín. Annar starfsmaður C hafi svo sinnt eftirliti og hafi hún ekkert nema það besta um kæranda og hans heimili að segja, auk þess sem sést hafi hversu vel drengjunum leið hjá kæranda.

Síðan hafi komið nafnlaus tilkynning 11. mars 2021 og hafi kærandi einnig þá getað sýnt fram á að ásakanir væru upplognar. Kærandi kveðst hafa samþykkt óboðað eftirlit og fíkniefnaprufur sem stóðu út janúarmánuð og aldrei hafi neitt mælst hjá honum. Þá hafi eftir óboðað eftirlit aldrei verið nokkuð sett út á hann eða aðstæður drengjanna.

Kærandi telur að vísvitandi hafi verið komið fram með rangar upplýsingar í tilkynningu 11. mars 2021 þar sem ekkert hafi átt sér stað sem gefið hafi tilefni til tilkynningar.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að um sé að ræða mál er varði tvo drengi sem lúta sameiginlegri forsjá foreldra og séu með lögheimili hjá móður. Mál drengjanna hafi verið í vinnslu hjá barnavernd á árunum 2014-2015 og svo aftur frá árinu 2019, með örstuttum hléum. Samtals hafa 26 tilkynningar borist Barnavernd B frá byrjun árs 2019, þar af ein í september 2020 frá fagaðila sem hafði áhyggjur af velferð drengjanna í umsjá föður og grunaði að neysla ætti sér stað á heimili föður.

Í beiðni föður frá 17. mars 2021 fór hann fram á það að Barnaverndarnefnd B tæki beiðni sína fyrir og myndi aflétta nafnleynd á tilkynningunni sem barst barnavernd þann 11. mars. Vísaði hann til þess að hann hvorki drykki né neytti fíkniefna og beitti strákana sína aldrei ofbeldi. Það væri óþarfa rask að standa í því að fá starfsmenn barnaverndar heim til sín, bæði fyrir sig og drengina. Kærandi hafi einnig áhyggjur af öryggi barna sinni gagnvart þeim aðila sem að hans sögn sendir inn vísvitandi rangar upplýsingar um hann í formi tilkynningar til barnaverndar.

Beiðni um afléttingu nafnleyndar hafi verið synjað í bréfi til kæranda þann 18. mars 2021 með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem áskildar væru til þess að aflétta nafnleynd, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að föður sé mikilvægt að fá að vita hver tilkynnti til Barnaverndar B taldi barnavernd að ákvæði 19. gr. væri ekki uppfyllt. Við það mat hafi meðal annars verið höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum með 19. gr. frumvarpsins til barnaverndarlaga og eru eftirfarandi:

"Þegar rætt er um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum vegast einkum á þrenns konar sjónarmið.

Í fyrsta lagi sjónarmið um réttláta málsmeðferð. Samkvæmt þeim hefur aðili máls rétt til að vita hver tilkynnti um ófullnægjandi aðbúnað barns. Það kann að skipta hann miklu máli til þess að andmælaréttur hans nýtist að fullu. Sé lögð áhersla á þetta sjónarmið leiðir það til þess að gera verður ráð fyrir því sem meginreglu að aðili eigi rétt á að vita hver tilkynnandi er. Er gengið út frá þeirri meginreglu í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi koma til þau sjónarmið sem varða vernd tilkynnanda. Þá er lögð áhersla á það sjónarmið að tilkynnandi sjálfur, sem er ekki að gera annað en að gæta hagsmuna tiltekins barns og um leið opinberra hagsmuna, eigi rétt á því að vera laus við þau óþægindi sem vitneskja aðila kann að hafa í för með sér fyrir tilkynnanda.

Í þriðja lagi koma síðan til athugunar sjónarmið sem varða virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Því er haldið fram að sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá því að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf kynni að vera á afskiptum hennar. Tvö síðarnefndu sjónarmiðin eru augljóslega tengd.

Í ákvæðinu er farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu með sama hætti og gert er í gildandi lögum. Það byggist á því að sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem kynnt voru hér að framan. Nauðsynlegt er að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barnaverndarnefndar. Jafnframt er byggt á því sjónarmiði, sem er tengt hinu fyrrnefnda, að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd mundi það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Ákvæði núgildandi laga og frumvarpsins um nafnleynd endurspegla sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn eru ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda..."

Barnavernd B telur að mikilvægt sé að tilkynnandi fái að njóta nafnleyndar, sbr. 19. gr. bvl. Almenningur hafi tilkynningarskyldu samkvæmt 16. gr. bvl., sé ástæða til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisástæður, verði fyrir ofbeldi eða heilsu þeirra og þroska sé stofnað í hættu. Fái tilkynnandi ekki að njóta nafnleyndar, sbr. 19. gr., skapist sú hætta að almenningur fælist frá því að senda tilkynningar til barnaverndar með þeim afleiðingum að barnavernd fái ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf sé á afskiptum hennar. Ekki sé það dregið í efa að rask hafi orðið á högum kæranda og barna hans með fyrrnefndum aðgerðum starfsmanna barnaverndar, eins og faðir heldur fram. Hins vegar sé bent á að það hafi verið  gert með hagsmuni barnanna í huga eins og kveðið er á um í meginreglum barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. bvl., um leið og meðalhófs hafi verið gætt. Hagsmunir barnaverndarstarfsins í heild verði að vega þyngra en hagsmunir einstakra málsaðila af því að fá nafnleynd tilkynnanda í máli sínu aflétt.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála tekur kærandi fram að hann hafi talið að Barnaverndarnefnd B ætti að taka beiðni hans fyrir og taldi það skrítið að starfsmaður Barnaverndar B hafi sjálfur synjað beiðni hans, án þess að leggja beiðnina fyrir nefndina. Í málsmeðferðarreglum Barnaverndar B, sem séu aðgengilegar á vef Barnaverndar B, komi fram í 1. gr. að starfsmönnum Barnaverndar B sé falið umboð til að taka ákvarðanir í einstökum barnaverndarmálum, að undanskildum þeim ákvörðunum sem óheimilt sé samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga að framselja til starfsmanna. Þessi regla um framsal valds barnaverndarnefndar til starfsmanna barnaverndar byggir á 3. mgr. 14. gr. bvl.

Í ljósi framangreinds sé gerð krafa um að hin kærða ákvörðun, þess efnis að afléttingu nafnleyndar á tilkynningu í máli drengjanna sé synjað, verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndar B að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst nefndinni 11. mars 2021.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á þeim að hefja ekki könnun máls nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl. Könnun í máli því, sem hér er til meðferðar hjá Barnavernd B, hófst í kjölfar tilkynningar er barst 11. mars 2021. Aflað var upplýsinga um aðbúnað drengjanna og viðtal tekið við kæranda. Einnig tók kærandi fíkniefnapróf sem reyndist neikvætt. Niðurstaða könnunar staðfesti ekki tilkynningarefnið og gaf ekki annað til kynna en að aðstæður drengjanna væru góðar.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og  þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 18. mars 2021 um að synja kröfu A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningu vegna sona hans, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum